Hugvit fyrir gjaldeyri
Gunnar Ellert Geirsson
Verkefnið Hugvit fyrir gjaldeyri gengur út á að skapa gjaldeyristekjur með því að selja hugvit Íslendinga og tækni Íslendinga á sviði fiskiskipa og tækni sem tengist fiskiskipum. Gunnar Ellert Geirsson fer fyrir verkefninu.
„Staða verkefnisins var á hugmyndastigi áður en það fékk styrk frá Vaxtarsamningi Suðurnesja og við fengum púður til að keyra það áfram. Okkur hefur gengið vel og við höfum náð okkar markmiðum fullkomlega. Markmiðið var að koma markaðssetningu og markaðsefni á þann stað sem við vildum hafa það. Við teljum að við séum búnir að vekja nauðsynlega athygli á okkur þannig að við getum farið að gera það sem við ætlum okkur. Við erum að vinna á Rússlandsmarkaði og einnig hér heima á Íslandi. Við höfum kynnt verkefnið út um allan heim," segir Gunnar Ellert.
„Staða verkefnisins í dag er sú að uppskerutíminn er að byrja. Við erum að njóta góðs af markaðsstarfinu í dag og erum örugglega að fara að afla gjaldeyris. Framtíðarsýnin er björt. Við höfum heilmikið fram að færa Íslendingar í þessum geira. Við hjá Álasundi horfum björtum augum á framtíðina og teljum okkur geta selt þessa þjónustu," segir Gunnar Ellert jafnframt.
Álasund er fimm manna fyrirtæki sem síðan tengist öðrum fyrirtækjum. Fyrirtækið er komið í samstarf við Sjávarklasann og hefur fengið marga samstarfsaðila í verkefnið úr þessum iðnaði til að selja hugvit fyrir gjaldeyri.