01/11/2013 13:38:47

Ávarp formanns Ragnars Guðmundssonar við úthlutun styrkja

Styrkhafar 2012

Ágætu gestir - Það hefur verið virkilega ánægjulegt fyrir ferkantaðan verkfræðing eins og mig að koma að Vaxtarsamingi Suðurnesja og sjá hversu mikil gróska og kraftur kraumar undir niðri í nýsköpun í atvinnulífinu hér á Suðurnesjum.
Eftir þá varnarbaráttu sem hefur verið háð undanfarin ár í atvinnulífinu er nauðsynlegt að huga vel að sprotum og nýsköpun þegar hjólin fara að snúast að nýju. Íslenskt atvinnulíf sem hvílir á meginstoðum fiskveiða, álbræðslu og ferðaþjónustu verður aðeins að takmörkuðu leyti eflt með auknum veiðum, stærri álverum og fleiri ferðamönnum.
Til þess að ná raunverulegri aukinni framleiðni atvinnulífsins er því nauðsynlegt að víkka út þessi svið atvinnulífsins sem og önnur svið þess. Lykillinn er því ekki aukið magn, heldur fleiri tegundir og verðmætari afurðir úr magninu.
Um þetta snúast einmitt frumkvöðlun, nýsköpun og sprotar. Að þróa nýja vöru og/eða þjónustu sem oftar en ekki byggir á sterkum grunni meginstoða atvinnulífsins, menntun og þekkingu samfélagsins og sérstöðu viðkomandi svæðis.
Það er því engin tilviljun sem réði því að í Vaxtarsamningi Suðurnesja er sérstaklega lögð áhersla á uppbyggingu klasa og framgangs rannsókna og þróunar á sviði flugs, öryggis, heilsu, tækni, orku, sjávarútvegs og matvæla. Fjölbeytileiki atvinnulífsins verður hins vegar aldrei skrifaður í stein og á þeim þremur árum er liðin eru frá undirritun Vaxtarsamnings Suðurnesja hefur einnig mikil gróska átt sér stað hér á Suðurnesjum á sviði hvers kynns hönnunar.
Það var því ærið verkefni sem við í stjórn Vaxtarsamnings Suðurnesja stóðum frammi fyrir í nóvember síðastliðnum að setja okkur inn í umsóknir þau verkefni sem sóttu um styrk að þessu sinni.
Verkefnin sem sótt var um styrki fyrir að þessu sinni voru alls 31 talsins. Styrkbeiðnirnar hljóðuðu upp á rúmlega 96 milljónir. Var það niðurstaða Stjórnar Vaxtarsamnings Suðurnesja að úthlutað skyldi 25 milljónum og 250 þúsund krónum til 14 verkefna.
Áður en ég tilkynni hver verkefnin eru vil ég segja við forsvarsmenn þeirra að 17 verkefna sem ekki hlutu styrk að líta alls ekki svo á að verkefnum þeirra hafi verið hafnað endanlega. Stjórn Vaxtarsamnings Suðurnesja hefur takmarkaðan sjóð að veita styrki úr og valdi því önnur verkefni fram yfir sem hún taldi betur skilgreind, féllu frekar að markmiðum vaxtarsamningsins, voru með sterkara klasasamstarf, raunhæfari tíma- og kostnaðaráætlun eða tryggari fjármögnun þegar afgreiðsla umsóknana fór fram. Í þessu fellst engin áfellisdómur þeirra verkefna sem ekki hlutu styrk og Stjórn Vaxtarsamnings Suðurnesja hvetur þá umsækendur sem ekki hlutu styrk að þessu sinni að halda áfram að þróa verkefni sín og sækja svo um að nýju fyrir næstu úthlutun.

Listi yfir þau verkefni sem fengu styrk er að finna á öðrum stað hér á síðunni - undir upplýsingar og úthlutun 2012.


Til baka

Samband sveitarfélaga
á Suðurnesjum

Skógarbraut 945,
235 Reykjanesbær.
Sími: 420-3288
www.sss.is