02/27/2012 09:00:56

Auðlindagarðurinn - Staða verkefnis


Í byrjun árs 2011 hlaut Gekon ehf. styrk frá Vaxtarsamningi Suðurnesja vegna verkefnis um Auðlindagarð á Suðurnesjum sem unnið var í samstarfi við KADECO, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og fleiri aðila á Suðurnesjum. Meginmarkmið verkefnisins var að kortleggja Auðlindagarðinn, þá aðila sem honum tilheyra ásamt styrkleikum hans og veikleikum. Einnig að setja fram tillögur að næstu skrefum með tilliti til niðurstaðna samkvæmt framangreindu.
Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri HS Orku, hefur verið aðaldriffjöðrin við mótun og framkvæmd hugmyndarinnar um Auðlindagarð á Suðurnesjum og í dag fer fram fjölbreytt starfsemi í Svartsengi sem grundvallast á þeirri hugmyndafræði. Umgjörð Auðlindagarðsins og skilgreining hans eru þó óljós og jafnvel huglæg. Á sama tíma er jarðvegur fyrir frekari uppbyggingu Auðlindagarðsins talinn vera góður og engar sérstakar hindranir til staðar nema helst hugarfar og vilji hlutaðeigandi aðila. Ávinningur formlegs Auðlindagarðs á Suðurnesjum felst m.a. í sjálfbærri þróun, aukinni atvinnusköpun og hagvexti á svæðinu. Auk þess getur hann leikið stórt hlutverk við uppbyggingu ímyndar og markaðssetningar á Suðurnesjum. Þá myndar Auðlindagarðurinn nokkurs konar sýningarglugga fyrir sérstöðu íslenskrar jarðvarmavinnslu og getur hann orðið ákveðin fyrirmynd fyrir aðra sem vilja feta sama veg. Í niðurstöðum verkefnisins var því lagt til að stofnað yrði til formlegrar starfsemi Auðlindagarðsins sem hefur skýra stefnu, þar sem jarðvarminn yrði lífæðin en allar hlutbundnar og óhlutbundnar auðlindir á hverjum stað jafnframt nýttar með ábyrgum hætti.
Í dag er unnið að frekari mótun samstarfsins og stofnun formlegs samstarfsvettvangs Auðlindagarðsins. Að þeirri vinnu koma m.a. Gekon ehf., KADECO og sérstakur faghópur innan jarðvarmaklasasamstarfsins Iceland Geothermal. Verkefnin felast m.a. í gerð styrkumsókna fyrir frekari þróun Auðlindagarðsins, söfnun lykilaðila að samstarfinu, mótun sameiginlegrar stefnu, umfangs og samstarfsverkefna Auðlindagarðsins o.s.frv. Öllum þeim, sem hafa áhuga á að taka þátt í þessari vegferð, er velkomið að slást í hópinn. Hægt er að fá frekari upplýsingar með því að senda tölvupóst á netfangið thora@gekon.is.

Til baka

Samband sveitarfélaga
á Suðurnesjum

Skógarbraut 945,
235 Reykjanesbær.
Sími: 420-3288
www.sss.is