07/12/2011 15:23:43

Hugvit fyrir gjaldeyri - staða verkefnis

Verkefnið Hugvit fyrir gjaldeyri heldur áfram á fullri ferð


Í úthlutun Vaxtarsamnings Suðurnesja árið 2010 var veittur styrkur til verkefnisins „Hugvit fyrir gjaldeyri“, sem var klasasamstarf fjögurra fyrirtækja. Markmið verkefnisins var að hámarka hlutdeild íslensks hugvits, verkþekkingar og tæknibúnaðar við nýsmíðar fiskiskipa á komandi árum. Álasund ehf leiddi klasasamstarfið, en því lauk nýlega með góðum árangri. Afurðir verkefnisins eru tækni- og smíðalýsingar fyrir fjórar stærðir togveiðiskipa sem nú er verið að markaðssetja innanlands og utan.

Verkefnið er enn í fullri vinnslu hjá Álasundi og gefur staða mála félaginu ástæðu til mikillar bjartsýni. Nýlega hlaut Álasund, ÍAV og Skipasýn annan styrk frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í atvinnusköpunar átaki sem ber nafnið „Atvinnusköpun í sjávarbyggðum“. Fimm milljónir voru veittar í styrk til markaðssetningar ofangreindra afurða

„Ómetanlegur stuðningur Vaxtarsamnings Suðurnesja og hreint frábærar viðtökur Iðnaðarráðuneytisins og Nýsköpunarmiðstöðvar blása okkur von í brjóst og við horfum björtum augum til framtíðar. Samhliða vinnslu tækni- og markaðsgagna höfum við unnið að því að auka möguleika kaupenda að nýjum fiskiskipum á fjármögnun. Sú vinna hefur skilað góðum árangri og miklar líkur á því að innlendum og erlendum útgerðum verði gert kleyft að fá ný skip með mun hagstæðari fjármögnunarleið en hingað til hefur boðist. Samhliða því að markaðssetja og hanna nýjar vörur erum við því að vinna að nýstárlegum fjármögnunarleiðum fyrir okkar viðskiptavini. Ef þetta gerir sig allt saman verður þetta mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið þar sem gert er ráð fyrir því að skipin verði að miklu leiti unnin á Íslandi“, segir Gunnar Ellert verkefnastjóri hjá Álasundi ehf.

Nánari upplýsingar um þetta framsækna verkefni verða veittar hér á síðunni innan tíðar.

Til baka

Samband sveitarfélaga
á Suðurnesjum

Skógarbraut 945,
235 Reykjanesbær.
Sími: 420-3288
www.sss.is