02/03/2011 09:54:52

Verkefnastyrkir

1. Hugvit fyrir gjaldeyri.
Verkefnið lýtur að því að selja á alþjóðamarkaði fiskiskip þar sem íslenskt hugvit, hönnun og þjónusta er útflutningsvaran, byggt á þekkingu á sjávarútvegsmálum og reynsla af erlendum mörkuðum. Verkefnið hlýtur 3,5 millj. króna styrk.

2. Grjótkrabbi – rannsóknir og vinnsla á Suðurnesjum.
Verkefnið lýtur að rannsóknum, veiðum, vinnslu og markaðssetningu krabbaafurða. Grjótkrabbi finnst enn sem komið er hvergi í Evrópu nema á Íslandi, en er þekkt nytjategund við NA strönd Ameríku. Afurðin er vel þekkt um allan heim. Verkefnið hlýtur 3 millj. króna styrk.

3. Bragðsprautun á fiski.
Fyrirtækið MarinAid hefur þróað náttúruleg bragðefni sem notuð eru til að bragðsprauta fisk. Verkefnið lýtur að því að framleiða og markaðssetja fiskafurðir með mismunandi bragðtegundum til sölu á erlenda markaði. Verkefnið hlýtur 3 millj. króna styrk.

4. Flugvirkjabúðir
Verkefnið lýtur að því að byggja upp alþjóðlegt nám í flugvirkjun hérlendis. Mikil eftirspurn mun skapast eftir flugvirkjum í Evrópu og víðar á næstu árum Aðstaða Keilis á Ásbrú opnar möguleika fyrir íslenska og erlenda nema að sækja nám í flugvirkjun. Nám þetta er ekki til staðar á Íslandi í dag. Verkefnið hlýtur 2 millj. króna styrk.

5. Hagræn förgun á sorpbrennslugjalli.
Verkefninu er ætlað að skoða og greina nýja valkosti við förgunarlausnir óbrennanlegra afurða sorpbrennslustöðvar, greiningu aðferða til þess að minnka umfang og magn þeirra afgangsafurða sem þyrfti að farga með öðrum hætti og skoða hugsanlega nýtingu á meðhöndlaðri ösku og gjalli. Með verkefninu er hugsanlegt að leggja grunn að nýrri sjálfbærri starfsemi og sparnaði á gjaldeyri. Verkefnið hlýtur 2 millj. króna styrk.

6. Auðlindagarður um jarðhita.
Verkefnið er að kortleggja þá aðila sem tilheyra klasanum um auðlindagarð og greina styrkleika og veikleika klasans. Jafnframt að greina möguleg tækifæri sem eru til staðar fyrir klasann og útbúa aðgerðaáætlun um næstu skref. Verkefnið hlýtur 2 millj. króna styrk.

7. Þörungaræktun á Suðurnesjum.
Verkefnið lýtur að þróun ræktunartækni á þörungum og nýtingu þeirra. Vegna þverrandi olíuauðlinda og minnkandi fiskistofna í heiminum hefur áhugi manna á smáþörungum sem olíuuppsprettu vaxið síðustu ár. Lýsi er ómissandi efnisþáttur í fiskeldisfóðri og ennfremur mikilvægt í fæðu manna. Afurð þessa verkefnis verður m.a. omega-3 auðug þörungaolía. Samfélagslegur hagnaður verkefnisins er að á Suðurnesjum verður til tækniþekking í fremstu röð á landsvísu. Verkefnið hlýtur 2 millj. króna styrk.

8. Grindavík Experience.
Uppbygging klasasamstarfs í ferðaþjónustu hefur verið að þróast í Grindavík í nokkur ár. Stjórn vaxtarsamnings er einhuga um að styðja við verkefni þar sem byggt er á styrkleikum og tækifærum svæðisins. Grindavík Experience er dæmi um slíkt verkefni og vill stjórn samningsins styrkja klasann og efla uppbyggingarstarfið enn frekar. Verkefnið lýtur að ráðgjöf- greiningu og stefnumótunarstarfi. Verkefnið er styrkt um 1,5 millj. króna.

9. Raungreinabúðir – menning, saga og náttúra Suðurnesja.
Raungreinabúðir eru ætlaðar nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum. Megin áherslan er á að laða að erlenda nemendahópa til styttri dvalar. Útbúnar eru starfsstöðvar með léttum verkefnum í raungreinum, sögu, menningu og náttúru Suðurnesja og geta verkefnin verið víða um Suðurnesin. Verkefnin fara eftir getu og áhuga þátttakenda og þannig blandast saman skemmtun, fræðsla og ferðalag um svæðið. Verkefnið hlýtur 1 millj. króna styrk.

10. Spiral design
Spiral design er fyrirtæki sem hannar og framleiðir eigin tískuföt. Verkefninu er m.a. ætlað að skjóta styrkari stoðum undir fata- og textílhönnun á svæðinu og skapa þannig Suðurnesjum sérstöðu í þeim iðnaði sem á rætur sínar í skapandi greinum. Verkefnið hlýtur 1 millj. króna styrk.

11. Markaðssetning á Öryggisvitundarmyndböndum í Evrópu.
AwareGo er hugbúnaðarfyrirtæki sem hefur hannað lausnir á sviði öryggis starfsmanna í tölvukerfum og er tilbúið til markaðssetningar. Verkefnið felst í hönnun og sölu erlendis á vitundarvakningarmyndböndum sem tengjast starfsöryggi fyrirtækja varðandi tölvukerfi þeirra. Lausnirnar þarf í flestum tilfellum að sérsníða að þörfum viðskiptavina, sem umtalsverð vinna liggur í. Verkefnið hlýtur 1 millj. króna styrk.

12. Strandstangveiði.
Alþjóðamarkaður fyrir strandstangaveiði er mjög stór. Strendur landsins er ónýtt auðlinda á þessu sviði. Verkefnið er nýung í ferðaþjónustu á Íslandi. Verkefnið lýtur að því að skipuleggja grunnþjónustuna, finna og kortleggja veiðisvæði auk þess að tryggja samstarf við sveitarfélög og landeigendur. Verkefnið hlýtur 1 millj. króna styrk.

13. Lífmetanframleiðsla á Suðurnesjum.
Verkefnið lýtur að þróun og undirbúningi að framleiðslu lífmetans úr lífrænum úrgangi frá fiskiðnaði og kjúklingaframleiðslu, en hvort tveggja er í dag úrgangur sem þarf að faraga með nokkrum tilkostnaði. Hjá Orkuskóla Keilis og á svæðinu verður til tækniþekking í fremstu röð á landinu. Hér er um að ræða verðmætasköpun í héraði þar sem kostnaðarsömum úrgangi er breytt í verðmætt hráefni. Verkefnið hlýtur 1 millj. króna styrk.

14. Grindavík – lifandi kennslustofa í sjávarútvegi.
Markmið verkefnisins er að nýta aðstöðu og reynslu fræðsluaðila og fyrirtækja á sviði veiða, vinnslu og fiskeldis til að hasla sér völl sem áhugaverðan vettvang til náms á erlendum markaði. Fjölmargar þjóðir, ekki síst í þróunarlöndum, eru að endurskipuleggja veiðar og vinnslu með tilliti til sóknar á alþjóðlegum markaði og fá til þess stuðning Fjölþjóðlegra stofnana. Í slíkum tilfellum er leitað eftir heilstæðum lausnum. Kynning á heilu samfélagi þar sem saman fer fræðileg kennsla, vinna og hagnýt reynsla í hæsta gæðaflokki yrði mjög eftirsóknarverður kostur á þessu sviði. Verkefnið hlýtur 800 þús króna styrk.

15. Raven Design.
Verkefnið snýst um áframhaldandi þróun og markaðssetningu heilsukoddans Keilis, sem hefur unnið til verðlauna erlendis. Hönnun koddans byggir á reynslu hönnuðar. Verkefnið hlýtur 500 þús króna styrk.

Til baka

Samband sveitarfélaga
á Suðurnesjum

Skógarbraut 945,
235 Reykjanesbær.
Sími: 420-3288
www.sss.is