02/03/2011 09:49:38

Ræða formanns Vaxtarsamnings Suðurnesja Jóhönnu Reynisdóttur við úthlutun verkefnastyrkja

Á síðasta ári gerðu Iðnaðarráðuneytið og Atvinnuþróunarráð Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum með sér vaxtarsamning, með það að markmiði að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins á Suðurnesjum og auka hagvöxt með virku samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins. Byggt er á hugmyndafræði klasa enda er eitt af markmiðum vaxtarsamninga um land allt að stofna til og efla klasasamstarf til uppbyggingar atvinnulífs og nýsköpunar.
Iðnaðarráðherra skipaði fimm manna verkefnastjórn vaxtarsamningsins, það eru þau: Bergdís Sigurðardóttir, Hjálmar Árnason, Gunnar Tómasson, Elvar Knútur Valsson, og sú sem hér stendur Jóhanna Reynisdóttir var skipuð formaður verkefnastjórnar. Verkefnastjóri Björk Guðjónsdóttir var ráðinn til starfa í ágúst og stjórnin kom til síns fyrsta fundar 24. ágúst.
Í vaxtarsamningi Suðurnesja kemur skýrt fram að áhersla verður lögð á uppbyggingu klasa og framgang rannsókna og þróunar á sviði flugs og öryggis, heilsu, tækni og orku, sjávarútvegs og matvæla. Jafnframt hefur verkefnastjórn samningsins hug á að styðja við uppbyggingu ferðaþjónustuklasa þar sem víðtækt samstarf og þróunarstarf á sér stað á Suðurnesjum. Einhugur er innan verkefnisstjórnar að styðja við þau verkefni þar sem byggt er á styrkleikum og tækifærum svæðisins.

Á fyrsta stjórnarfundi var lögð áhersla á að ráðast í öflugt kynningarstarf á Vaxtarsamningnum, þeim möguleikum sem í honum felast fyrir fyrirtæki í nýsköpun og jafnframt að kynna þær áherslur á uppbyggingu og þróun klasasamstarfs sem uppfylla þarf til að verkefni séu styrkhæft.

Auglýstir voru fimm opnir kynningafundir, sem haldnir voru í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum. Ferðaþjónustunni og sjávarútvegsmálum voru gerð sérstök skil og fengnir á fundina gestir með þekkingu og reynslu af klasamyndun á þeim sviðum. Fundirnir voru vel sóttir og komu til að kynna sér möguleika vaxtarsamnings hátt í eitt hundrað manns. Er það mat stjórnar að kynningarfundirnir hafi vakið verðskuldaða athygli á vaxtarsamningnum og hafi verið nauðsynlegir í upphafi starfsins. Auk opinna kynningarfunda var fjöldi fyrirtækja heimsóttur til að kynna samninginn og hvetja fyrirtæki til nýsköpunar. Á fundum fulltrúa vaxtarsamnings og fyrirtækja gafst gott tækifæri til að ræða verkefnahugmyndir og hvaða skilyrði umsóknir þurfa að uppfylla. Auk opinna kynningarfunda og fyrirtækjaheimsókna var samningurinn kynntur hjá hinum ýmsu félögum á Suðurnesjum sem óskuðu eftir kynningu á sínum fundum.

Þegar kom síðan að því að auglýsa eftir styrkhæfum verkefnum höfðu mörg fyrirtæki haft góðan tíma til að undirbúa vel sína umsókn. Sótt var um styrki til 35 verkefna og hljóðuðu umsóknir upp á tæplega 115 millj. króna. Verkefnin voru að ýmsum toga, í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, fatahönnun, hugbúnaðarverkefni og rannsóknarverkefni svo eitthvað sé nefnt. Í lok vinnuferlisins hjá verkefnastjórn ákvað hún að kalla eftir kynningu á nokkrum verkefnum sem kom til greina að styrkja þar sem óskað var eftir nánari upplýsingum. Efir þær kynningar var endanleg ákvörðun tekin um styrkveitingar. Verkefnastjórn styrkir 15 verkefni samtals að fjárhæð kr. 25,3 millj. króna.

Verkefnastjórn hefur áhuga fyrir því að Ferðaþjónustan á Suðurnesjum vinni saman eins og kostur er að því að mynda klasa sem mundi hafa það hlutverk að kynna Suðurnes og kosti svæðisins í ferðamennsku og afþreyingu hvers konar. Með þeim hætti gæti Vaxtarsamningur Suðurnesja komið að uppbyggingu og þróun klasans með stuðningi. Í Grindavík er klasi ferðaþjónustufyrirtækja og hefur verið til í nokkurn tíma Grindavík Experience. Fyrirtækin í klasanum eru ólík hvað þjónustu við ferðamenn snertir, en sjá að sameiginlega geta þau gert mjög margt í markaðssetningu svæðisins með því að vinna saman. Stjórn Vaxtarsamnings vill koma að slíku ferðaþjónustuverkefni og telur að þar komi styrkurinn að bestum notum fyrir heildina. Ferðaþjónustuklasinn Grindavík Experience er því eitt verkefnið sem styrkt er.

Atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur verið viðvarandi í langan tíma. Stór verkefni sem skapa fjölda nýrra atvinnutækifæra á svæðinu hafa dregist. Depurð vegna langvarandi erfiðleika í atvinnumálum svæðisins hefur þó ekki dregið allan mátt úr atvinnulífinu, það bera umsóknir til vaxtarsamnings með sér. Hér er ýmislegt að gerast í nýsköpun og í rannsóknum, samstarfi háskóla og fyrirtækja, sem geta leitt til atvinnusköpunar. Þess vegna er afar mikilvægt fyrir þetta svæði að stjórnvöld hvetji atvinnulífið hér áfram með fjárveitingum og samstarfi við heimamenn um vaxtarsamning.

Ég sem formaður Vaxtarsamnings Suðurnesja verða að segja að ég er ánægð með það starf sem unnið hefur verið og vill þakka iðnaðarráðherra Katrínu Júlíusdóttir, starfsmönnum iðnaðarráðuneytisins, stjórn verkefnasamnings og verkefnastjóra fyrir ánægjulegt samstarf og hlakka til að eiga áfram gott samstarf við ykkur öll - atvinnulífi svæðisins til heilla.

Til baka

Samband sveitarfélaga
á Suðurnesjum

Skógarbraut 945,
235 Reykjanesbær.
Sími: 420-3288
www.sss.is